Blússtemmurnar snerta okkur hér og þar í sálinni og vekja upp ólík geðhrif. Þau eru mörg falleg blúðskvæðin en harla ólík eins og fegurðin sjálf. Hið fagra er ekki alltaf þægilegt og hið ágengilega hrjúfa ekki alltaf ljótt. Í allri list eru mörk milli þess sem er ekta og einlægt á eina hliðina og vúlgar og væmið á hinn bóginn. Listamönnum tekst best upp þegar þeir teygja sig til þessara marka og snilldin felst í því að komast alla leiðina að mörkunum án þess að fara yfir þau. Þar liggur munurinn á einlægni og tilgerð.
B.B. King
Í blús eru klassísk kvæði sem reyna á þessi mörk milli tilgerðar og væmni annars vegar og einlægni af þeirri gerð sem djúpar sálir einar búa yfir. Líklega er Thrill is gone frægast söngva af þessu tagi. Söngur kóngsins sjálfs – B.B. King. Hér er á ferðinni blús í moll sem býður uppá hræðilegt klúður ef menn kunna ekki með hann að fara. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að engin ætti að syngja blús um annað en sjálfan sig í moll… segja tregafulla sögu um sjálfan sig.
[Tengill: Hér syngur B.B. King „Thrill is gone“]
Thrill is gone er löngu orðinn „slagari“… eitt af þessum „lögum“ sem eru á dagskrá hjá fjórðu hverju blúsbandi. En það er bara einn og einn sem ræður við að syngja og spila Thrill is gone. Ég hef kannað blús og hlustað á óteljandi hljómplötur í meir en fjörutíu ár. Ég hef aldrei heyrt neinn koma Thrill is gone til skila með geðhrifum nema B.B. King sjálfan og… Luther Allison.
Luther Allison
Michael Burks
Og þá komum við að því. Þegar við hlustum á músík hlustum við eftir einhverju. Það er hægt að hlusta eftir hrynjandi – grúvinu. Það er hægt að hlusta eftir söng og sérkennilegum „fraseringum“. Einnig má hlusta eftir melódískri lýrik í hljóðfæraleik. Og þannig má lengi telja…. Mig langaði til að minnast Michael Burks sem heimsótti okkur á Blúshátíð í fyrra og skildi eftir sig einn magnaðasta blúskonsert á Íslandi. Fann Thrill is gone…. Það sem heyrnin mín rak í rogastans yfir við þessa hlustun á Thrill is gone hjá Michael Burks – sem eins og sjá má er eins og hver önnur rútína – er hið fullkomna vald sem hann hefur á gítarnum… sem verður eins og – eða kannski er? – eitt af hans eigin líffærum. Hrein unun á að hlusta.
[Tengill: Hér er Michael Burks að kveða Thrill is gone. Heyrið framhjá hljómgæðum!]
B.B. King náði snemma þroska í blús… rétt eins og Muddy Waters. Báðir eiga það þó sameiginlegt að performansin varð alltaf betri og betri eftir því sem þeir eltust. Thrill is gone er svo stórfenglegt kvæði að B.B. King skilaði því aldrei betur en gamall maður… hann þarf ekki margar nótur til að segja sitt….
[Tengill: Hér er gamli maðurinn að flytja okkur Thrill is gone… enginn leikur það eftir!]