Ofurgítarleikarinn Tommy Emmanuel í Háskólabíói 8. mars
Ástralski ofurgítarleikarinn Tommy Emmanuel er af mörgum talinn einn allra besti gítarleikari samtímans. Fingrafimi hans er engu lík og tónlistina kryddar hann með óviðjafnanlegri kímni sinni.
Tommy Emmanuel ræður yfir magnaðri spilatækni. Gítarinn leikur í höndum hans og engu líkara er en á sviðinu sé fullskipuð rokkhljómsveit, tveir gítarar, tromma og bassi. Slíkir eru galdrar Tommys og tónleikar hans eru eftirsóknarverð upplifun.
Gítarsnillingurinn Björn Thoroddsen, sem gert hefur garðinn frægan víða um lönd að undanförnu, hefur leikinn og hitar áhorfendur upp áður en Tommy Emmanuel stígur á svið og flytur á sinn einstaka hátt helstu dægur- og rokkperlur sögunnar.
Tommy Emmanuel kemur hingað til lands eftir tveggja mánaða tónleikaferð um Bandaríkin þar sem hann hefur spilað fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld. Færri komust að en vildu þegar Tommy Emmanuel spilaði í Háskólabíói fyrir tveimur árum, þannig að vissara er að tryggja sér miða í tíma.
Hér er hægt að kaupa miða: http://midi.is/tonleikar/1/7977/