Norden Blues Festival á Hvolsvelli um hvítasunnuna

Grana Louise, sem er án efa ein af bestu blússöngkonum í Chicago, en þar er hún búsett. Hún syngur með Blue Ice Band (Íslenska landsliðið í blúsnum) á laugardagskvöldinu í Hvolnum kl. 21:00. Blúsfélagið Hekla hefur endurvakið Norden Blues Festival, blúshátíðina sem fór undir ösku í eldgosunum 2010.

Á hátíðinni um hvítasunnuhelgina koma fram tvær skærar blússtjörnur frá Chicago og bestu blústónlistarmenn landsins. Tónleikar hátíðarinnar fara fram á Hvoli Hvolsvelli föstudaginn 25. maí og laugardaginn 26. maí næstkomandi og hefjast kl. 21:00 bæði kvöldin.

Föstudagskvöldið 25. maí: Katherine Davis & Blue Ice Band, Stone Stones, Síðasti Séns og Tryggvi á Heiði. Hápunktur föstudagskvöldsins er Katherine Davis, ein virtasta og vinsælasta blússöngkona Chicagoborgar og þá er nú mikið sagt. Katherine hefur komið fram á fjölda virtra blúshátíða, bæði í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Hún kemur fram með íslensku blúshljómsveitinni Blue Ice Band sem leikið hefur með fjölda heimsþekktra blústónlistarmanna, hérlendis sem erlendis, nú síðast á Blúshátíðinni í Reykjavík um páskana með John Primer og Michael Burks. Fremstir meðal jafningja í Blue Ice Band eru þeir Halldór Bragason og Guðmundur Pétursson, en þeir kunna blúsinn upp á sína tíu fingur.

Stone Stones er kraftmikil „power blúshljómsveit“ sem vakið hefur mikla athygli á undanförnum árum fyrir frábæran flutning og tjáningu. Síðasta haust kom sveitin fram á blúshátiðinni í Odda í Noregi og var talin skærasta ljós þeirrar hátíðar. Hljómsveitin var stofnuð sérstaklega fyrir Norden Blues Festivalið 2009. Síðasti Séns er hljómsveit „ættuð“ af Suðurlandi. Sveitin er þekkt í íslenska blúsheiminum fyrir frábæran flutning á blústónlist og höfðar til blúsáhugafólks í víðum skilningi. Þó svo að hljómsveitin sé þekkt fyrir að vera jafnvíg á flestar tegundir dægurtónlistar, þá verður hún í blúsgírnum þetta kvöld. Fremstur meðal jafningja er skeiðamaðurinn, söngvarinn og gítarleikarinn Jens Einarsson. Tryggvi á Heiði er innansveitar blúsmaður, bóndi og lífskúnstner. Tryggvi spilar og syngur deltablúsinn á næman en kraftmikinn hátt.

Laugardagskvöldið 26. maí: Grana Louise, Tregasveitin, Castro og Stone Stones. Góð vinkona íslenskra blúsunnenda verður í aðalhlutverki á laugardagskvöldið, Grana Louise sem kom fram á fyrstu hátíðinni árið 2009. Hún er hörku blúsdífa frá Chicago en þar í borg kemur hún vikulega fram á tónleikum. Grana segist ekki hafa gleymt stemningunni í Hvolnum þegar hún var hér síðast og lofar hún eftirminnilegum tónleikum í ár. Grana Louise er afskaplega fjölhæf, sögð einhver kraftmesta blússöngkona samtímans sem einnig ræður við að túlka silkimjúka og viðkvæma blúsa. Grana Louise kemur fram með Blue Ice Band.

Hin goðsagnakennda Tregasveit átti frábæra endurkomu á Blúshátíðinni í Reykjavík um páskana og þeir lofa ekki síðri tónleikum á Hvolsvelli. Þeir feðgar Pétur Tyrfingsson og Guðmundur Pétursson leiða hljómsveitina sem var leiðandi í blúslífi Íslendinga um árabil.

Castro er blúshljómsveit sem samanstendur af þroskuðu fólki sem kemur saman og spilar fyrir ánægjuna af spilamennskunni. Þau flytja jöfnum höndum eigið efni svo og lög eftir meistara blússögunnar. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 bæði kvöldin. Miðaverð er kr. 3000 fyrir hvort kvöld. Miðaverð ef keyptir eru miðar fyrir bæði kvöldin er samtals 5000 kr.

 

 

Comments are closed.