Marel Blues Project hita upp fyrir Blúsdrottninguna Andreu þriðjudaginn 3. apríl .

Marel Blues Project – Hvað er nú það?

Blúsinn hefur lengi verið samtvinnaður kúltúr Marel. Að loknum stefnumótunarfundi árið 2006 ákváðu nokkrir samstarfsfélagar að efna til blúshátíðar. Blúshljómsveit var formlega sett á laggirnar undir nafninu Marel Blues Project og var hún skipuð tveimur gítarleikurum, bassaleikara og trommuleikara. Innan skamms sýndu aðrir tónlistarmenn áhuga og vildu vera með. Fyrsta Blúskvöld Marel varð að veruleika þar sem Marel fólk spilaði og söng fyrir Marel áhorfendur.Fyrsta blúshátíðin gekk mjög vel og er fyrir löngu orðin árlegur starfsmannaviðburður og mikilvægur hlekkur í starfi starfsmannafélagsins. Árið 2010 kom fram sú hugmynd að fá Andreu Gylfadóttur, sem nýlega var útnefnd söngkona ársins á afhendingarhátíð Íslensku tónlistarverðlaunanna, að deila með okkur reynslu sinni og veita Marel blúsfólki tilsögn ásamt því að koma fram á blúshátíðinni það árið.  Síðan þá hefur Andrea lyft blússtemningunni í fyrirtækinu í nýjar hæðir jafnframt því að koma  fram með Marel Blues Project víða, meðal annars í Hörpu og Chicago. Nú er stefnan sett á að spila á Blúshátíð Reykjavíkur samhliða því sem nýr geisladiskur er að koma út, hljóðritaður á Blúskvöldi Marel 2011.

Með Marel Blues Project á Blúshátíð Reykjavíkur koma fram:  Brynjar Már Karlsson bassi, Haraldur Gunnlaugsson gítar, Haukur Hafsteinsson trommur,  Jóhann Jón Ísleifsson gítar, Sævar Garðarsson trompet, Sigurður Perez Jónsson saxófónn, Einir Guðlaugsson söngur, Hallgrímur Björgólfsson söngur og Rakel María Axelsdóttir söngur. Njótið tónlistarinnar!

Comments are closed.