Lucky Peterson 3: You can always turn around!

Við höldum áfram að segja söguna af Lucky Peterson….

Þrátt fyrir meint vandræði um og eftir 2003 lagði Lucky Peterson ekki árar í bát. árið 2004 gaf hann út plötu með föður sínum hjá JSP sem þeir nefndu If You Can‘t Fix IT. Peterson eldri lét gamlan draum rætast og átti sinn eigin blúsferil á síðasta áratug tuttugust aldarinnar og gaf út nokkrar plötur. Nú voru feðgar hér í annað sinn á ferð eftir rúm þrjátíu ár!

http://www.youtube.com/watch?v=0AZBryEO23o

Þrjú ár liðu þar til næsta plata kom út og nú aftur hjá JSP-forlaginu sem hefur greinilega haldið mikilli tryggð við Lucky Peterson. Platan hét Tete a Tete og kom út 2007. Nú var Lucky Peterson einn á ferð. Það er eins og feðgaplatan hafi skilað einhverju. Var það eins konar leit eftir hjálp að búa til hljómplötu með pabba gamla? Eins og allir vita felast gersemar lífsins í ástvinum okkar og umhyggju þeirra. Þegar syrtir í álinn leitum við til þeirra. Músikin tengdi þá feðga saman og kærleikann lifum við fremur en segja frá honum. Þegar fólk vinnur saman að tónlist getur það lifað kærleikann – rétt einsog þegar fjölskyldan fer saman á veiðar eða borðar saman jólamatinn. Lucky Peterson gaf nú út plötu 2009 hjá JSP ásamt eiginkonu sinni Tamara Peterson. Nafnið er krúttlegt…  Darling Forever.

http://www.youtube.com/watch?v=MBMe-sfNk40

Árið 2010 hlýtur Lucky Peterson að hafa náð traustum bata. Það ár gaf hann út tvær plötur og er heiti þeirra líkast til viðeigandi. JSP platan hét Heart of Pain. Heima í Bandaríkjunum hljóðritaði hann fyrir Dreyfus-fyrirtækið sem gefið hafði út Black Midnight Sun og fékk nýja platan heitið You Can Always Turn Around. Þessar plötur eru táknrænar fyrir endurkomu, endurreisn eða jafnvel sáluhjálp. Á köflum er undirtónninn trúarlegur.

You Can Always Turn Around er fantagóð plata. Í senn lágstemmd akústísk músík og kraftmikil. Hljómurinn einkar geðþekkur. Frakkar heiðra tónlistarmenn fyrir góðar plötur með Grand Prix du Disque á hverju ári og fékk Lucky Peterson verðlaun fyrir You Can Always Turn Around. Heima í Ameríku vakti platan líka athygli. Blues Foundation þar í landi stendur fyrir sínu Blues Music Award og var þessi skífa Petersons tilnefnd sem Best Acoustic Blues Album ársins. Francis Dreyfus lést rétt áður en platan kom út og þar með gaf Lucky Peterson ekki út fleiri plötur með þeim undir Dreyfus-merkjum.

Hljómurinn á You Can Always Turn Around nýtur sín ágætlega í blús Willie McTell Statesboro Blues….

Í viðtölum hefur Lucky Peterson talað fallega um konuna sína og þreytist ekki á því að þakka henni fyrir lífsbjörgina. Hann er jafnvígur á nánast alla tónlist. Á You Can Always Turn Around syngur hann Trouble eftir Ray LaMontagne. Í kvæðinu er það einmitt kona sem bjargar manninum. Ég er viðkvæmur fyrir svona söngvum og segja sumir að ég sé væminn!

Árið eftir að þessi frábæra plata You Can Always Turn Around kom út sendi Lucky Peterson frá sér enn eina plötuna hjá JSP-fyrirtækinu og geta menn velt fyrir sér skilaboðunum sem felast í titlinum – Every Second A Fool is Born. Þessi plata er fullkomin andstæða You Can Always Turn Around. Nú er það þungur karftablús með veinandi gítar á fullu blasti.

Nýjasta pródúktið er  Live At The 55 Arts Club Berlin. Blackbird Music gefur út og í pakkanum eru fimm diskar – tveir hljómdiskar og þrír mynddiskar! Þarna má sjá hvernig þau hjón Tamara og Lucky Peterson bera sig að þegar þau skemmta fólki.

Við megum eiga von á á skemmtilegum konsert á Blúshátíð Reykjavíkur! [Framhald]

Comments

Lucky Peterson 3: You can always turn around! — 1 Comment

  1. Pingback: Lucky Peterson & Tamara Peterson ásamt Guitar Shorty á Blúshátíð Reykjavíkur 2013 |