Lucky Peterson 1: Snemma beygist krókurinn

Þriðjudaginn 23. mars koma fram á Blúshátíð Reykjavíkur hjónin Tamara og Lucky Peterson. Stendur þessi galdramaður á fimmtugu bráðum. Sagan hans er þó bæði löng og skrautleg. Þegar hún hefur verið rakin í grófum dráttum gæti ég trúað að flestir sem hafa dálæti á blús, sóli, rokkaróli, gospeli og jassi – einhverju af þessu eða öllu saman – geti varla beðið eftir því að skella sér í rauðu skóna og grænu buxurnar og storma niðrá Hótel Nordica þriðjudaginn fyrir páska. Svona til að létta okkur störfin verður þessi saga rakin í nokkrum bútum……

lucky-peterson-met-le-feu-a-l-espace-malraux-121706

Lucky Peterson er fæddur Judge Kenneth Peterson þann 13. desember 1964 í Buffalo í New York fylki. Í blúskreðsum telst hann til ungra manna þó hann verði fimmtugur á næsta ári. Hann hefur gefið út meir en tuttugu hljómskífur sjálfur og leikið undir hjá öðrum á óteljandi plötum. Enda verið að í hvorki meira né minna en 45 ár…. 45 ár? Nei… þetta er ekki prentvilla. Lucky Peterson var nefnilega sannkallað undrabarn og sló í gegn 1969 aðeins fimm ára gamall.

Sú klisja er fremur leiðigjörn þegar talað er um að menn hafi blúsinn í blóðin eða séu fæddir með blúsinn. Einsog þetta er nú vitlaust þá liggur við að þetta eigi við Lucky Peterson.

James PetersonJames Peterson (1937-2010)

Maður er nefndur James Peterson fæddur í Alabama 1937 og var hann sonur blúsbúllueigenda. James flutti að heiman 14 ára með blúsinn úr búllu pabba síns í eyrum og hjarta og lagði af stað norður á bóginn. Hann keypti sér gítar og kenndi sjálfum sér að spila. Um miðjan sjötta áratuginn þegar hann hafði fest ráð sitt settist hann að í Buffalo í New York fylki og spilað soldið blús þar í sveitum með bandi sem félagarnir kölluðu Jesse James and the Outlaws. Stuttu eftir að Lucky Peterson fæddist festi James kaup á húsakosti þar sem hann setti upp Governors‘ Inn House of Blues. Á jarðhæðinni var blúsklúbbur og fjölskyldan bjó á hæðinni fyrir ofan.

Allir meistarar blústónlistarinnar spiluðu hjá James Peterson í Governor‘s Inn. Einn kosturinn við að spila á þessum stað var að vertinn sá til þess að allar græjur og hljóðfæri voru á staðnum. Og menn og konur gátu meira að segja komið einhesta því alltaf var hægt að bjarga undirleikurum. Frá blautu barnsbeini heyrði Lucky Peterson blúsinn uppí gegnum gólfjalirnar. Ekkert slorpakk þar á ferð né gaularar heldur sjálfur Muddy Waters, Jimmy Reed, Little Milton, Buddy Guy, Junior Wells, Koko Taylor og fjöldinn allur af minni og meiri spámönnum.

Lucky litli Peterson sniglaðist í kringum pabba sinn og músikfólkið frá því hann gat gengið og heillaðist af músíkinni og hljóðfærunum. Hann byrjað auðvitað að reyna að spila á trommur. Bara þriggja ára. Litlum drengjum þykir gaman að skapa hávaða með barsmíðum eins og allir vita. Einn af þeim sem kom til að spila á Governor‘s Inn var sá frægi Bill Doggett sem Honky Tonk er kennt við. Þá voru Hammond-orgelin flottustu hljóðfærin í bransanum. Lucky Peterson heillaðist af þessu hljóðfæri. Sagan segir að það hafi upphaflega verið smíðað af dvergum sem stungu af úr einhverju ævintýri. Litli snáðinn var ekki orðinn fimm ára og sér til ánægju sagði Bill Doggett honum til og líka Jimmy Smith sem var einn af þeim sem boðaði fagnaðarerindi Hammond-orgelsins á sínum tíma.

luckypeterson_lp

James Peterson spilaði sjálfur blús á gítar. Þegar menn komu einir eða fáliðaðir í hús hjálpaði hann til á sviðinu og lék undir. Lucky litli Peterson stóð varla útúr hnefa þegar hann byrjaði að spila með pabba sínum og öðrum blúsmönnum. Þegar Willie Dixon átti leið um Buffalo rak hann í rogastans þegar hann sá og heyrði drenginn. Hann spilaði á orgel, bassa og gítar. Í Ameríku skipta frægð og peningar öllu máli. Sýni barn hæfileika hefur það verið landlæg árátta að freista þess að hafa það til sýnis fyrir milljónir. Hugsar þá enginn um hvort börn hafi gott af slíku yfirleitt eða hvort tiltekið barn sé líklegt til að þola að vera haft þannig til sýnis. Hvað um það. Willie Dixon hljóðritaði Lucky litla Peterson og fyrr en varði kom hann fram í The Tonight Show, The Ed Sullivan Show og What‘s My Line? Milljónir manna sáu Lucky litla Peterson flytja 1-2-3-4 sem var endursamið lag James Brown Please, please, please frá 1956. Það var 1969 sem fyrsta plata Lucky Peterson kom út – Our Future (Today Records).

Capture

[Tengill: Hér er Lucky Peterson 7 ára gamall að spila og syngja í sjónvarpinu]

James Peterson gaf sjálfur út  The Father, The Son, The Blues árið 1970. Á þessari plötu spilaði Willie Dixon og hjálpaði til við blöndun. En líka Lucky litli Peterson sem spilaði á orgelið. Hvort þetta var tilraun til að ná blúsframa í frægðarljóma barnsins skal ósagt látið. Ekkert framhald varð á þessu og James Peterson beið með það í tuttugu ár að leggja fyrir sig spilamennsku og hljómplötuútgáfu.

17051

Sagan segir að vinslit hafi orðið með James Peterson og Willie Dixon um strax eftir þessi ævintýri. Telja sumir það hafi verið verr og miður þar sem ekki var látið meir með barnastjörnuna í bili. Líklega hefur þetta bara verið gæfa Lucky Peterson að hann komst ekki í klærnar á hljóðvershákörlum, markaðssporðdrekum og öðrum peningasnákum.

Lucky Peterson gekk í skóla eins og önnur börn og unglingar. Auk venjubundinnar skólagöngu nam hann við Buffalo Academy for Visual and Performing Arts. Þar spilaði hann á franskt horn í symfóníuhljómsveit skólans. En blús og önnur músík á þeirri grein átti hug hans allan. Hann spilaði oft og einatt með þeim tónlistarmönnum sem komu fram á Governors‘ Inn auk þess sem hann smalaði saman í sitt eigið band.

Þegar Lucky Peterson var laus úr unglingaskólanum hafði móðir hans stórar áhyggjur af því að hann villtist inná hættulegar brautir. Henni var alveg ljóst að músíkin var óstöðvandi afl sem aldrei var hægt að kveða niður. Vandamálið snerist um í hvaða félagsskap Lucky stundaði hana. Little Milton var góður vinur fjölskyldunnar og nauðaði móðirin í honum að taka hann með sér í túra og passa hann í leiðinni. Sólaði blúsljúflingurinn hafði ekki trú á þessu fyrsta kastið. Eins dauði er þó annars brauð eins og þar stendur… Eitt sinn forfallaðist organisti Little Miltons. Lucky Peterson sem þá var 17 ára hljóp í skarðið. Sá gamli heilaðist svo af drengnum að hann réði hann í fasta vinnu og nokkrum mánuðum síðar var Lucky Peterson orðinn hljómsveitarstjórinn. Lucky byrjaði tónleikana með sínu eigin þriggja kortéra setti þar sem hann söng og spilaði á orgel.

Blúsmönnum frá Ameríku hefur alltaf verið tekið fagnandi í Evrópu og svo römm er þessi taug sums staðar að nokkur hljómplötufyrirtæki hafa lifað á því góðu lífi að hljóðrita blúsmenn á ferðalagi og gefið út plötur. Á þessum árum sem fyrr voru alls konar pakkaferðir blúsmanna til Evrópu. Lucky Peterson fór í eina ferð af því tagi undir regnhlífarheitinu  Young Blues Giants og var spilað og sungið við mikinn fögnuð. Yngri kynslóð blúsmanna var að springa út. Í þessari ferð vélaði Isabel-forlagið í Frakklandi Lucky Peterson til að hljóðrita plötu sem hann kallaði Ridin‘ og kom út 1984. Þá var hann tvítugur.

9005194

Þegar heim kom bauðst Lucky að ganga til liðs við hljómsveit Bobby „Blue“ Bland. Þar var hann stjörnusólóisti í hljómsveit sólkóngsins. Eftir fáein ár sá hann ekki lengur ástæðu til að bíða eftir því að freista gæfunnar sem sjálfstæður listamaður á eigin vegum. Hann hafði reynsluna, æfinguna og kunnáttuna. Þar að auki var hann búinn að margprófa hvort hann næði einn og sjálfur til áheyrenda. Árið 1988 settist hann að í Flórída en þar bjuggu foreldrar hans. Hann bjóst til að kanna ókunn lönd og kunn á eigin vegum. Hann var 24 ára með næstum tuttugu ár að baki í bransanum! [Framhald]

Comments

Lucky Peterson 1: Snemma beygist krókurinn — 1 Comment

  1. Pingback: Lucky Peterson & Tamara Peterson ásamt Guitar Shorty á Blúshátíð Reykjavíkur 2013 |