Borgin styrkir Blúshátíð í Reykjavík
Borgarhátíðasjóður Reykjavíkurborgar hefur gert samstarfssamning við Blúshátíð í Reykjavík um að styrkja hátíðina um tvær milljónir króna á ári, næstu þrjú árin. Styrkurinn er mikil viðurkenning á starfi, markmiðum og mikilvægi Blúshátíðar í Reykjavík sem hefur eflst með ári hverju frá fyrstu Blúshátíðinni árið 2004. Eitt af markmiðum Borgarhátíðasjóðs er að tryggja samfellu og framþróun í árvissum hátíðum sem laða að sér gesti til borgarinnar.
Hápunktur starfsemi Blúshátíðar í Reykjavík er stórhátíðin sem haldin er í dymbilvikunni ár hvert, nú í níunda skipti. Mikið kapp er lagt á að fá virta, þekkta og leiðandi blústónlistarmenn til þess að leika á hátíðinni. Gestir hátíðarinnar í ár eru John Primer blúsmaður frá Chicago og Járnmaðurinn Michael Burks margverðlaunaðir blúsmenn .Sérstök áhersla er lögð á að koma ungu og efnilegu íslensku tónlistarfólki á framfæri.
Blúshátíð í Reykjavík á mikla möguleika á að vaxa og dafna á næstu árum og vinna sér enn betri sess sem ein besta Blúshátíðin í okkar heimshluta og draga að sér enn fleiri gesti, ekki síst vegna samstarfsins við Reykjavíkurborg. Miðasala á Blúshátíð er á www.midi.is
Halldór Bragason listrænn stjórnandi Blúshátíðar, Signý Pálsdóttir skrifstofustjóri menningarmála, Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar og Þorsteinn G. Gunnarsson frá Blúshátíð undirrita samninginn.