Blúshátíðin í Reykjavík var sett í Hörpu kl. 14 .00 í dag, laugardaginn 23. mars. Við setningu hátíðarinnar var Halldór Bragason gerður að heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur.
Halldór, sem er upphafsmaður Blúshátíðarinnar, hefur unnið ötullega að vexti og viðgangi tónlistarinnar á Íslandi. Hann hefur komið að blúshátíðum víða um land, staðið fyrir námskeiðum og kennt fjölda manns að njót og spila blús. Halldór hefur spilað með mörgum virtustu blústónlistarmönnum samtímans, bæði á Blúshátíð í Reykjavík og erlendis, ýmist einn eða með hljómsveitunum sínum Vinum Dóra og The Blue Ice Band.
Við setningu Blúshátíðarinnar steig fjöldi tónlistarmanna á stokk og félagar úr Krúserklúbb Reykjavíkur sýndu eðalvagna á planinu fyrir framan Hörpu.
Á vegum Blúshátíðar verða haldnir þrennir stórtónleikar á Hilton Reykjavík Nordica í dymbilvikunni.
Þriðjudag 26. mars kl. 20 – Hilton Reykjavík Nordica: Lucky og Tamara Peterson. Þessi stórkostlega blúshjón fara létt með að trylla gesti Blúshátíðar í Reykjavík í ár. Lucky hefur blúsinn í blóðinu og sönginn í hjartanu gaf út sína fyrstu plötu fimm ára gamall og hefur síðan ekki slegið slöku við. Tamara er blússöngkona eins og þær gerast bestar! Þau koma fram með The Blue Ice Band. Á tónleikunum kemur einnig sveitin Skúli Mennski og Þung byrði sem nýverið gáfu út blúsplötu. Beebee and the Bluebirds kynna efni af væntanlegri plötu.
Miðvikudag 27. mars kl. 20 – Hilton Reykjavík Nordica: Guitar Shorty er lifandi goðsögn. Hann er fyrrum gítarleikari Willie Dixon, Sam Cooke og Ray Charles. Guitar Shorty er einn af virtustu og vinsælustu blúsmönnum heims, margverðlaunaður og hefur spilað með flestum stórstjörnum blústónlistarinnar frá upphafi, þ.á.m. mági sínum Jimi Hendrix, Muddy Waters, Koko Taylor, Johnny Winter, Albert King, Junior Wells og James Cotton. Guitar Shorty kemur fram með The Blue Ice Band. Stone Stones og Marel Blues Project hita upp hljómsveitin er skipuð starfsmönnum Marels og hefur spilað víða um lönd á vegum fyrirtækisins.
Fimmtudag 28. mars, skírdag kl. 20 – Hilton Reykjavík Nordica 10 ára afmælishátíð Blúshátíðar í Reykjavík, Andrea Gylfa, Vinir Dóra, Ragnheiður Gröndal, Björn Thoroddssen, Sigurður Sigurðsson , Mike Pollock, Ásgeir Óskarsson, Langi Seli og Skuggarnir, Sigurður “Kentár “Sigurðsson, Berglind Björk Jónasdóttir og fjöldi annarra lætur blúsljós sitt skína. Allt það besta í íslenskum blús!