Áður en lengra er haldið…. Smellið á myndina hér fyrir neðan og sjáið hverju við megum ef til vill eiga von á þegar Tamara og Lucky Peterson stíga á svið á Blúshátíð Reykjavíkur……
Heldur nú áfram sögu vorri…..
Lucky sagði skilið við ferðaband Bobby „Blue“ Bland og settist að í Flórída 1988 og lagði áherslu á sinn eigin sólóferil. Orðsporið fór víða og fljótlega var hann fastur sessjónmaður hjá King Snake Records sem var lítið forlag í Flórída. Hann spilar á hljómborð á plötu Kenny Neal Big News From Baton Rouge! og That Woman is Poison með Rufus Thomas og Harp and Soul með Lazy Lester en allar þessar plötur voru gefnar út hjá Alligator í Chicago.
Þegar Lucky hafði spilað inná þessar plötur taldi blúsmógúllinn Bruce Iglauer að réttast væri að bjóða honum í gripahúsin sín. Alligator gaf út þriðju sólóplötu Lucky Peterson 1989 sem hét Lucky Strikes! Þar spilar Lucky sjálfur að sjálfsögðu á hljómborð en jafnframt gítarsólóin í öllum lögum nema einu.
[Tengill: Lucky Peterson: „Over my head“ af Lucky Strikes!]
Alligator auglýsti auðvitað og þar með náði músík Lucky Peterson athygli útvarpsstöðvanna og músíkblaðamanna um allt land. Billboard og Keyboard luku hann lofi og síðarnefnda blaðið sagði að Lucky Peterson væri „26 ára gamall blúsmeistari“. Platan fékk spilun á næstum 200 útvarpsstöðvum og Lucky Peterson fylgdi henni eftir með hljómleikum vítt og breytt um Ameríku.
Strax árið eftir 1990 gaf Alligator út aðra plötu Triple Play þar sem hann syngur af list, spilar á orgelið og mergjaðan gítar. Eins og skríbentar Alligator segja á netinu: „The material blended straight-ahead blues, Memphis soul and funky grooves that placed Lucky Peterson on the cutting edge of the blues.“
Margir vilja halda því fram að þessar plötur séu þær bestu sem Lucky Peterson hefur sent frá sér. En það er einsog með aðra slíka dóma… við gefum ekki mikið fyrir þá.
[Lucky Peterson árið 1990 í Ástralíu: Little red rooster]
Eftir að hafa starfað fyrir Alligator samdi Lucky Peterson við Verve/Gitanes sem er dótturfyrirtæki plöturisans Polygram Records og gaf út fjórar plötur á sex árum: I‘m Ready (1992), Beyond Cool (1993), Lifetime (1995) og Move (1998).
[Tengill: Lucky Peterson 1995 I‘m Ready + Medley]
Lucky spilaði ekki bara blúsinn sinn. Mavis Staples (f. 1939) gaf út plötu til heiðurs gospeldrottningunni Mahaliu Jackson Spirituals & Gospel 1996 og þar spilaði Lucky á rafmagnsorgel og kom fram á tónleikum í Ameríku og Evrópu þegar þeirri plötu var fylgt eftir.
Eins og nærri má geta fylgdu stöðugar hljómleikaferðir allri þessari plötuútgáfu. Þessi ferðalög tóku sinn toll… höfðu áhrif á lífsstílinn, heilsuna og fjölskylduna.
Við aldarlok samdi Lucky Peterson við Blue Thumb Records og gaf þar út tvær plötur – Lucky Peterson 1999 og Double Dealin‘ árið 2001. Sjálfur var hann hundónægður með síðarnefndu plötuna í þann mund er hún kom út en sættist við hana eftir nokkrar vikur. Á þessari plötu er að finna merkilegan blús – Four little boys sem afi hans sagði syni sínum sem aftur skilaði henni til Luckys. Hafi ég ekki misskilið hrapalega þá er þetta söngur um ömmu hans sem dó ung og fól manni sínum drengina sína fjóra og bað hann fyrir að senda þá ekki í fóstur. Double Dealin‘ var tilnefnd til Grammy-verðlauna.
[Tengill: Lucky Peterson When my blood runs cold af Double Dealin‘]
Nú var Lucky Peterson að ná hátoppi ferilsins. Nú samdi hann við Dreyfus Records og gaf út Black Midnight Sun 2003. Segja sumir að þetta sé besta plata Lucky Petersons fyrr og síðar. Aðrir að hún sé eitt af þessum meistarastykkjum á pari við Hoodoo Man Blues þeirra Buddy Guys og Junior Wells. Auðvitað er það útí bláinn þegar hins sögulega samhengis er gætt. Blaðamaður New Yorker hafði þó alveg rétt fyrir sér þegar hann skrifaði að Lucky Peterson væri „a master of the guitar, organ and microphone“.
[Tengill: Lucky Peterson – Black midnight sun]
Þrátt fyrir gríðarlega vinnusemi, mikil afköst og stöðuga spilamennsku út um allar jarðir beggja vegna Atlandshafsins blés ekki alltaf byrlega. Reyndar grúfði óveðurský yfir því Lucky Peterson var í rauninni orðinn veikur. Hann hleypti snemma heimdraganum – reyndar svo snemma að hann fór á mis við venjulega barnæsku og félagsskapur unglingsáranna var ekki svona rétt eins og gerist og gengur. Ungur, fjarri handleiðslu foreldra og með auraráð…. Þetta býður heim óhóflegum drykkjuskap og djammi þar sem eiturlyfjadjöfullinn húkir á næsta horni og býður eitthvað styrkjandi fyrir giggið. Lucky Peterson hefur sjálfur sagt að vímuefnavandinn hafi reynst honum svo erfiður að bæði starf hans og fjölskylda liðu fyrir og hann hafi öðru hvoru verið nánast götunnar maður. Sjúkdómsþróunin byrjaði einhvern tímann uppúr 1990 og hríðversnaði eftir að móðir Luckys féll frá 1997.
Þeir sem segja sögu Lucky Petersons tala um að hann hafi ekki getað fylgt eftir Black Midnight Sun og tala um að hann hafi „bara“ gefið út plötur hjá evrópskum fyrirtækjum næstu árin á eftir og verður ekki annað skilið en skríbentum þyki þær ómerkilegar. Hér fella menn óþarflega harða dóma. Ef þessum skríbentum hefði verið fullkomlega ókunnugt um tæpa heilsu hins vígamóða blúsmanns er mér til efs að þeir hefðu leyft sér dóma af þessu tagi. Hjá öllum listamönnum eru skin og skúrir. Hljómplötur blúsmanna – rétt eins og annarra listamanna – fara tæpast stöðugt batnandi. [Framhald]
Pingback: Lucky Peterson & Tamara Peterson ásamt Guitar Shorty á Blúshátíð Reykjavíkur 2013 |