Guitar Shorty – Seint koma sumir en koma þó!

Blúshátíð Reykjavíkur verður haldin 23. til 28. mars. Einsog alltaf sækja okkur heim góðfúsugestir. Miðvikudaginn 27. mars fáum við að sjá og heyra Guitar Shorty á Hótel Nordica. Allir þeir sem njóta þess að heyra blússkáldin kveða og vita fátt sælukenndara en horfa á þau kveða stemmurnar á sviði sveipuð ljósum mega alls ekki fyrir nokkurn mun missa af þessum tónleikum. Guitar Shorty er holdtekja og persónugervingur alls þess sem við viljum einmitt fá að sjá á sviði. Upprunalegur blúsmaður….. Hefðin lifandi komin….. Verðugur fulltrúi þeirra sem þráast við að fremja blús áratugum saman ónæmir fyrir því sem kemur og fer í móðinn….. og því einn af þeim sem drifin er áfram af ástríðunni og spilagleðinni einni saman. Saga hans er um það vitnisburður og megum við ekki af þessu missa.

guitar-shorty-iv

Sögur af blúsmönnum

Blúsmaður er nefndur Guitar Shorty. Hann er skráður David William Kearney í opinbera þjóðskrá og fæddur 8. september 1939 í bænum Houston í Texas.

Eitt af því merkilega og skemmtilega í blússögunni er að hver blúsmaður á sér eins konar goðsagnarkenndan uppruna. Fyrir sögunni er alltaf einhver flugufótur í staðreyndunum en með tímanum hefur hún tekið á sig fast form – rétt eins og hið endalausa blúskvæði var soðið niður í þriggja mínútna stemmu þegar sungið var fyrir grammófón. Sagan af uppruna blúsmannsins Guitar Shorty hefur hið klassíska form allra slíkra sagna og er einhvern veginn svona…..

David er fæddur í Houston í Texas. Foreldrar hans slitu samvistum. Ólst upp með móður sinni fram eftir aldri í Kissimmee í Flórída. Móðurbróðir hans bjó á heimilinu og spilaði á gítar. Stalst litli snáðinn í hljóðfærið sem falið var undir rúmi og rogaðist við að spila þó hann væri svo lítill að hann gat ekki haldið á honum og höndin gat ekki gripið um hálsinn. Þetta kostaði grát og gnístran tanna. Svo sterk var löngunin til gígjunnar. Stríð barnsins var að æra móðurina sem krafðist þess að frændinn kenndi honum gripin. Og piltur var fljótur að læra og duglegur að æfa sig. David var ekki nema 17 ára þegar hann hóf að spila með The Walter Johnson Orchestra sem var 18-manna hljómsveit. Kvöld eitt var auglýst að Guitar Shorty væri mættur í bæinn og kæmi fram með orkestrunni og þóttu það mikil tíðindi. Einhverjar sögur fóru af þessum manni sem hét með réttu John Henry Fotescue (1923-1976) og hafði hljóðritað í gömlum stíl og kvað með hárri röddu. David kveið fyrir gigginu og æfði sig heil ósköp alla vikuna. Þegar kom að stóru stundinni uppgötvaði drengurinn að þetta var ekkert nema hrekkur. Hin stórkostlegi Guitar Shorty sem allir biðu með öndina í hálsinum eftir að fá að sjá og heyra var enginn en annar en hann sjálfur! Hefur nafnið Guitar Shorty loðað við hann uppfrá því.

Svona sögur eru skemmtilegar og klassískt þema í blúskúltúrnum. Þarna er litli fátæki drengurinn – gjarnan munaðarlaus eða frá hnjöskuðu heimili. Þarna er dularfullur eða ónefndur lærimeistari… gjarnan tengdur fjölskyldunni eða farandmúsíkant á leið um sveitina. Og þarna er líka augnablikið sem gerir blúsmanninn alveg hreint sérstakan og sér á báti. Robert Johnson hvarf á braut viðvaningur, lærði galdurinn í einhverjum óbyggðum og sneri aftur brilljant snillingur. Sagður hafa samið við andskotann. Augnablik Guitar Shorty er ekki sveipað slíkri dulúð – það felst einfaldlega í því að heimamenn bjuggu til stjörnu úr gítarstráknum sínum og gáfu honum nafn. Guitar Shorty. Svo hrifnir voru þeir af honum!

Þriðja kynslóðin…..

Guitar Shorty er af sömu kynslóð og þeir blúsmenn sem komu framá sjónarsviðið í Chicago um miðjan sjötta áratuginn og eru nú menn heilagir – Freddie King (f.’34), Otis Rush (f.’35), Buddy Guy (f.’36) og Magic Sam (f.’37). Allt voru þetta strákar sem göfguðu rafgítarinn svo að nú eru þetta magískir gripir sem enginn snertir nema með fullri lotningu, sungu af miklum sálarkrafti og stóðu stoltir á sviðinu, höfðu í frammi sprell og jafnvel akróbatík. Sem var þá ekki til siðs og þótti mikil sensasjón. Nýstárleg tjáning hins stolta blökkumanns.

Guitar Shorty var kannski aðeins of seinn á ferð til að verða súperstjarna meðal blússkáldanna seint á sjöunda áratugnum og þeim áttunda. Kannski starfaði hann á óheppilegu landsvæði. Ef til vill var markaðurinn mettur. Hver veit? Hitt vitum við að Guitar Shorty stóð altént í dyragættinni. Hann var ekki nema 18 ára þegar sjálfur Willie Dixon fékk hann til að hljóðrita fyrir Cobra-fyrirtækið 1957. Það hafði Otis Rush gert og hlotið mikla frægð – upptökur hans eru legendarí. Fyrirtæki þetta fór á hausinn og reyndar skall myrkur á útgáfu blústónlistar um þetta leyti. Rokkið stal senunni og meðal þeldökkra naut sól meiri hylli en blús sem þótti músik gamla fólksins. Svo rammt kvað að þessu að ungir blökkumenn trúðu því að blús væri músik fortíðarinnar og undirlægjunnar og höfðu sumir hreina skömm á honum. Þeir áttuðu sig ekkert á að þarna var á ferð dýrmæt kveðskaparhefð sem varðveitti í senn minni kúgunar og persónulegrar uppreisnar.

Guitar Shorty í New Orleans

Hvað um það…. Punkturinn er sá að hver sem er kom ekki til greina hjá Cobra og heldur ekki hjá Willie Dixon. Aðeins hæfileikamenn sem stóðu uppúr fengu slík tækifæri. Guitar Shorty var einn þeirra árið 1957 og hefði því allt eins getað orðið einn af þeim sem áttu plötur í betri partíum á 8. áratugnum og jafnvel staðið á stórum sviðum sitt hvoru meginn við 1970 kætandi bleiknefja ungmenni í tugþúsundatali. Einsog áðurnefndir helgir menn. Guitar Shorty hlaut enga landsfrægð eftir upptökurnar hjá Cobra. Hann fékk þó vinnu útá plöturnar. Guitar Shorty átti þess kost að starfa í New Orleans og leika í hljómsveit hins goðsagnarkennda Eddy „Guitar Slim“ Jones (1926-1959). Það var ævintýri líkast að spila og rúnta með þeim manni. Samhliða því að spila í sveit Guitar Slim leiddi Guitar Shorty sína eigin sveit sem var meðal þjónustufólks í því merkilega húsi Dew Drop Inn í New Orleans og spilaði undir hjá mönnum eins og T-Bone Walker, Big Joe Turner og Little Richard þegar þeir áttu leið um jassborgina. [Sjá hér vefsíðu um Dew Drop Inn í New Orelans]

!B9Vcbzw!mk~$(KGrHqJ,!lEEy+jC)JD(BM5cw8Updg~~0_35

Frá New Orleans til Kaliforníu og Kanada

Guitar Shorty var ekki allskostar ánægður í New Orleans þegar á leið og ekki sáttur í hljómsveit Guitar Slim. Leiðtoginn var erfiður og forfallaðist gjarnan vegna drykkjuskapar. Þarf þá að redda málum og bjarga slysum sem mönnum leiðist til lengdar. Guitar Shorty greip því tækifærið og tók boði að ganga til liðs við hljómsveit Sam Cooke 19 ára gamall og fór á tvo túra þar til hljómsveitin leystist upp. Þar með var Guitar Shorty komin til vesturstrandar Bandaríkjanna. Nú fékk Guitar Shorty annað tækifæri til ljósvakafrægðar þegar Pull Records í Los Angeles gáfu út þrjár smáskífur með honum árið 1959. Ekki leiddu þessar skífur til opinbers frama. Sem fyrr var Guitar Shorty þó ekki atvinnulaus. Hann rak eigin hljómsveit og spilaði á vesturströndinni og uppí Kanada og vildi helst setjast að í Vancouver uppúr 1960.

Önnur flökkusaga

Fyrstu árin eftir 1960 spilaði Guitar Shorty hér og þar og meðal annars í Seattle. Segir sagan að þar hafi hann hitt konu sem hét Marcia sem hann kvæntist og átti með dóttur. Marcia þessi var stjúpsystir Jimi Hendrix. Og gerast nú flökkusögur safaríkar og misvísandi. Ein útgáfan er að Jimi hafi heyrt og séð Guitar Shorty spila og syngja og tileinkað sér einhver trix. Varla getur það verið því Hendrix var farinn að spila sjálfur í hljómsveitum 1959 og farinn frá Seattle vorið 1962 spilandi á sinn rafgítar. Hin útgáfan er að Guitar Shorty hafi hitt Jimi Hendrix fyrst þegar sá síðarnefndi kom til Bandaríkjanna frá Bretlandi eftir frægð og frama, vitað öll deili á mági sínum og þakkað honum fyrir ýmis þau gull sem hann átti í kistu sinni.

Hvað skal segja? Ari fróði sagði að hafa skuli það sem sannara reynist. Þegar sögur eru sagðar af blúsmönnum gildir önnur regla: Hafa skal það sem ánægjulegra er að segja frá. Og það er miklu skemmtilegra að ímynda sér að Guitar Shorty – verkamaður í víngarði blúsgyðjunnar harkandi alla daga fjarri frægð og frama – hafi verið einn af þeim sem lagði til humal í þann seið er Jimi Hendrix bruggaði og úr varð rammgöldrótt rokkaról.

jimmy-hendrix-lovers-4131

Blúsinn kemst á markað

Blús komst ekki á markað hvítra manna svo eftir varð tekið í Ameríku og Evrópu fyrr en á sjöunda áratugnum. Sagan segir að telja megi þá menn hvíta á fingrum annarrar handar sem sáu Elmore James syngja og spila. Mikill áhugi vaknaði fyrir hvers konar alþýðutónlist og má rekja þessa ástríðu til róttækniþróunar meðal æskunnar sem hafði skömm á nýlendustefnu, kynþáttakúgun og fátækt í eigin samfélögum. Blúsmenn sem höfðu spilað með hjálp rafmagnsins um marga ára skeið brugðu sér nú í líki sveitamannsins og sungu blúsinn í gömlum stíl. Gamlir og ókunnir menn voru sóttir í sveitina og látnir spila fyrir menningarlega stúdenta. Blúsmenn sem hlotið höfðu stutta og staðbundna frægð en snúið til erfiðsvinnunnar tóku fram hljóðfærin sín að nýju og lögðust í ferðalög. Þessi alda hreif ekki Guitar Shorty með sér – ekki frekar en aðra blúsmenn af hans kynslóð. Þeirra tími rann upp eftir hina svokölluðu „bresku innrás“ í Ameríku. Rokkarólið úrkynjaðist í Bandaríkjunum í rauninni fyrir 1960 og var ekki svipur hjá sjón. Bretar ólu þessa nöðru við brjóst sér og líka blús og spratt upp stórfurðulegt menningarfyrirbæri á miðjum sjöunda áratugnum með gríðarlegum fjölda hljómsveita og undraverðri nýsköpun og könnunarferðum á vegum hryns og hljóða. Og þessi hreyfing ruddist inná markað Bandaríkjanna með The Beatles og Rolling Stones í broddi fylkingar. Amerískir unglingar uppgötvuðu að hin nýja músík átti sér í rauninni uppruna í þeirra eigin bakgarði hjá svörtu þjóðinni. Rann nú upp tími kraftsveita, tröllvaxinna tónleika og útihátíða. Í öllum þessum hávaða frá lokum sjöund áratugsins og fram eftir þeim áttunda fengu margir blúsmenn tækifæri til að spila fyrir gríðarlegan fjölda áheyrenda við hlið rokkstjarnanna eða í kjölfari þeirra. Ekki þarf að koma á óvart að þeir sem þarna máttu njóta sín voru aðeins þeir sem höfðu þegar komist í fremstu röð á markaði í sjálfum blúsheiminum. Því miður fyrir Guitar Shorty þá var hann ekki í þeim hópi.

„Við gefumst aldrei upp þótt móti blási!“

Frá því seint á sjöunda áratugnum og fram á miðjan áttunda áratuginn var músíkin aukastarf fyrir Guitar Shorty sem aflaði sér viðurværis með því að gera við bíla. Hann var ekkert einsdæmi að þessu leiti. Markaðurinn var þröngur og kjörin kröpp fyrir blúsmenn þegar sólið réði lögum og lofum. Menn gátu ekki unnið fyrir sér með blús nema í örfáum borgum þar sem þeir höfðu þá fyrir löngu getið sér gott orð og áttu trygga aðdáendur.

Síðla á áttunda áratugnum freistaði Guitar Shorty þess að hafa músíkina að aðalatvinnu að nýju. Fólkið sem hafði heyrt í blússtjörnunum á stórum tónleikum með rokkstjörnum ýmist augliti til auglitis eða af hljómplötum hafði áhuga á að heyra slíkan blús á samkomustöðum og klúbbum vítt og breytt um Bandaríkin – þó ekki væri hér um neinn stóriðnað að ræða. Smám saman treysti Guitar Shorty sig í sessi á nokkrum árum og gaf út plötu 1985 hjá Olive Branch Records sem nefnd var On the Rampage.

600x600

Útúr sortanum

Alla tíð hefur verið mikil hjálp í því fyrir blúsmenn að halda til Evrópu og skemmta fólki þar. Oftar en ekki hefur það ýmist veitt þeim ómælda ánægju þar sem þeim hefur verið tekið opnum örmum. Og stundum hefur Evrópuferð skapað mönnum betri kjör heima í Ameríku. Guitar Shorty hélt í fyrsta skipti í tónleikaferð til Bretlands 1991. Þá var blúskreis á Íslandi eins og við munum og reyndar nokkur gróska í útgáfu og endurútgáfu blústónlistar. Guitar Shorty hljóðritaði í þessari tónleikaferð plötuna My Way or the Highway fyrir JSP-fyrirtækið sem meðal annars gaf út fáeinar sæmilegar plötur með Buddy Guy.

51I6th6IcJL._SL500_SS500_

Viti menn! Guitar Shorty fékk verðlaun sem kennd eru við W.C.Handy fyrir My Way or the Higway og fengu þá hljómplötufyrirtæki í Bandaríkjunum áhuga. Frægðin kemur að utan segir einhvers staðar. Guitar Shorty samdi nú við Black Top í New Orleans sem gaf út þónokkrar blúsplötur á síðasta áratug aldarinnar. Topsy Turvy kom út 1993 með nokkrum nýjum lögum en einnig lögum sem Guitar Shorty hafði hljóðritað áður 1959. Hann gaf út tvær plötur í viðbót hjá Black Top – Get Wise to Yourself (1995) og Roll Over, Baby (1998).

Mér datt það í hug þegar ég var að hlusta á Roll Over Baby um daginn að líklega er hægt að skipta blúsröddum í einhverja flokka eða tegundir. Hér er ekki um eftiröpun að ræða þvers og krus heldur meðfædda eðliseiginleika. Albert King var til dæmis með dæmigerða rödd og Michael Burks heitinn sem heimsótti okkur á síðasta ári bjó yfir söngrödd af sama tagi. B.B. King hefur aðra tegund af rödd og ég heyri ekki betur á Roll Over Baby en Guitar Shorty sé með áþekka rödd. Reyndar eru raddirnar svo líkar að margir gætu ruglað þeim saman og haldið að þarna væri sjálfur kóngurinn á ferð ef þeir ættu að hafa upp getsakir um hver væri þar að kveða blús.

Guitar Shorty - Topsy Turvy (Front)66666666666

Kominn í fremstu röð

Black Top fór á hausinn með brambolti eins og allir vita og Guitar Shorty gaf út plötu 2001 hjá Evidence sem heitir I Go Wild! Þar er framleiðslan ekki endilega mér að skapi. Á þessum tíma var Robert Cray orðinn býsna ráðsettur og One & Only Man hljómar líkt og Robert Cray pródúksjón. Sossum ekkert verra fyrir vikið. Sýnir bara að karl getur spilað það sem verkast vill.

Þó fyrr hefði verið! Árið 2004 samdi Guitar Shorty við Alligator Records. Þetta forlag Bruce Igauer hefur lifað af allt frá því seint á áttunda áratugnum þegar það var stofnað nánast til þess að koma Hound Dog Taylor á framfæri. Úr þeirri fabrikku hafa komið þrjár plötur frá Guitar Shorty – Watch Your Back (2004), We the People (2006) og loks Bare Knuckles (2010). Tvær fyrrnefndu plöturnar komust í 10. og 11. sæti Billboard-listans yfir bestu blúsplöturnar þau árin. We the People fékk býsna góða dóma á sínum tíma. Ég tók mig saman í eyrunum og hlustaði á þessa plötu um daginn í rólegheitunum. Satt best að segja þá stendur hún fyllilega undir þeim fögru orðum sem um hana voru höfð á sínum tíma.

l53830-1

Hver er þá komin í bæinn til að spila og syngja fyrir okkur?

Já, hver er þá mættur á staðin? Einhver eftirherma, eða… Nei. Guitar Shorty hefur spilað blús og ekkert annað frá því um miðan sjötta áratuginn. Hann er af þriðju kynslóðinni. Hann komst vissulega ekki á markaðinn strax á sjöunda og áttunda áratugnum… en skilaði sér af fjalli á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar. Harkaði og þráaðist við að spila án frægðar í áratugi. Það er bara gleðin sem drífur soleiðis menn áfram.

Tenglar á nokkur klipp

Hér er hinn upprunalegi Guitar Shorty öðru nafni John Henry Fortescue (1923-1976).

Guitar Slim – Things that I used to do

Hér segir Buddy Guy frá Guitar Slim… En Guitar Shorty spilaði með honum um skeið. Gaurinn var stílsmiður á sinn hátt og fyrirmynd þriðju kynslóðarinnar í blús.

It‘s too late af My Way or the Highway (1991)

Mean Husband Blues af Topsy Turvy (1993)

Smells Good af Get Wise to Yourself (1995)

Roll over baby af Roll Over Baby (1998)

Fine Cadillac af I Go Wilde! (2001)

I‘m gonna leave you af Watch Your Back (2004)

What Good is Life? af We the People (2006)

True Lies af Bare Knuckles (2010)

Comments

Guitar Shorty – Seint koma sumir en koma þó! — 1 Comment

  1. Pingback: Lucky Peterson & Tamara Peterson ásamt Guitar Shorty á Blúshátíð Reykjavíkur 2013 |