Þessi frétt var á vef RÚV samstarfsaðila Blúshátíðar
„Blús er hróp á frelsi“

Pétur tók auðvitað lagið í Kolaportinu í dag.
„Mér líður vel þegar ég hlusta á blús og mér líður vel þegar ég syng blús,“ segir Pétur Tyrfingsson sem í dag var útnefndur heiðursélagi í Blúsfélagi Reykjavíkur þegar blúshátíð var sett við hátíðlega athöfn í Kolaportinu.
Pétur þykir vel að heiðrinum kominn en fáir hafa verið jafn ötulir og hann við að kynna og stuðla að uppgangi blústónlistarinnar á Íslandi. Hann hélt lengi úti vikulegum útvarpsþáttum um blús og eftir hann liggur fjöldi greina um sögu þessarar tónlistar. Þá hefur hann jafnframt spilað blús með Tregasveitinni ásamt syni sínum Guðmundi Péturssyni sem var einmitt heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur í fyrra.
„Blús er svolítið sérstakur,“ segir Pétur. „Þetta er ekki venjuleg tónlist. Hún hefur svo mikið með tilfinningar að gera. Blús hjálpaði mér og var mikil sáluhjálp fyrir mig hér á árum áður.“
Hann segir að það sé ekki síst frelsið sem heilli við blúsinn. „Blús er í raun og veru hróp á frelsi. Stundum er sagt að blús sé kvenfjandsamlegur en það má ekki gleyma því að hið kynferðislega frlesi hins svarta karlmanns var eiginlega eina frelsið sem hann hafði. Það að komast yfir konur. Auðvitað fólst viss kvenkúgun í því En svo komu konurnar og sungu líka blús. Þær Sungu um að þær þyrftu ekki á karlmanni að halda þannig að þetta er ákveðinn uppreisnarsöngur líka,“ segir Pétur.
Blúshátíðar í Reykjavík stendur fram á fimmtudag og búast má við að blúsinn ómi víða um bæinn. Dagskráin er fjölbreitt og fjöldi innlendra sem erlendra tónlistarmanna kemur fram. Hægt er að nálgast dagskrána hér.
Þessi frétt var á vef RÚV samstarfsaðila Blúshátíðar slóðin á viðtal við Pétur hér