Tónlistarstyrkur til Fjölsmiðjunnar

Tónlistarstyrkur til Fjölsmiðjunnar

Blúsfélag Reykjavíkur afhenti Fjölsmiðjunni á dögunum fjárstyrk að upphæð 225.000.- krónur. Styrknum verður varið til tónlistarstarfs unga fólksins sem nýta sér þjónustu smiðjunnar.

Peningarnir eru afrakstur söfnunarkvölds Blúsfélagsins, en á blúskvöldum febrúarmánaðar leggur félagið áherslu á samfélagslega ábyrgð, tónlistarmenn gefa vinnu sína og allur hagnaður kvöldsins er gefin til góðs málefnis. Auk tónleikanna lögðu þrír félar, Eyjólfur Ármannsson, Júlíus Valsson og Halldór Bragason til blúsdiska úr einkasöfnum sínum sem seldir voru vægu verði.

Fjölsmiðjan er vinnusetur fyrir ungt fólk á krossgötum. Henni er ætlað að starfrækja verkþjálfunar- og framleiðslusetur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára, sem hætt hefur námi og ekki fótað sig á vinnumarkaði. Fjölsmiðjan býður upp á margvísleg störf fyrir 90 ungmenni og þar er starfrækt lítið hljóðver og boðið upp á tónlistarkennslu.

Þorbjörn Jensson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar, tók á móti styrknum. Hann þakkaði Blúsfélaginu kærlega fyrir og sagði styrkinn koma að góðum notum við að byggja upp tónlistaráhuga og þroska krakkanna í Fjölsmiðjunni.

 

Comments are closed.