Birgir Baldursson er blúsmaður ársins 2017
Trommuleikarinn Birgir Baldursson var kjörin heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur við setningu Blúshátíðar í dag. Blúshátíð var sett á Skólavörðustígnum þar sem tónlistarmenn buðu upp á sannkallaða Blúsveislu þar sem tónlistin ómaði. Boðið var upp á grillmat og félagar í Krúserklúbbnum viðruðu bíla sýna og höfðu þá til sýnis.
Birgir Baldursson, sem nú ber nafnbótina blúsmaður ársins, var heltekinn af trommuleik strax fjögurra ára gamall og og hefur slegið taktinn síðan. Fyrst urðu húsgögnin á heimili hans fyrir barðinu á honum, einnig lampar og ljós, en fljótlega fékk hann trommur og fór að spila með skólahljómsveit Kópavogs 10 ára gamall. Hann hefur spilað með hjómsveitum á borð við S.H. Draumum, Bless, Sálinni Hans Jóns míns, Mannakornum, Kombóinu, Blúsmönnum Andreu, Unun, Dr. Gunna, Blue Ice Band mörgum fleirum. Hann hefur leikið inná tugi hljómplatna, unnið við kvikmyndatónlist, í leikhúsum og við söngleiki, svo eitthvað sé nefnd. Birgir hefur verið einn af merkisberum blústónlistarinnar hérlendis undanfarin ár og er vel að titlinum kominn.